Stígvélaði kötturinn
Þegar ég orti Rímur af stígvélakisu fannst mér nauðsynlegt að fara nákvæmlega eftir sögunni sem var fyrirmynd mín. Fljótlega komst ég að því að prentaðar útgáfur af sögunni eru oft styttar og endursagðar fyrir börn og því brá ég á það ráð að þýða hana úr frummálinu. Hér kemur þýðingin með myndum eftir Gustav Doré. Stígvélaði kötturinn úr Sögum gæsamömmu eftir Charles Perrault [1] Einu sinni var malari sem átti ekki annað til að arfleiða syni sína þrjá af en mylluna sína, asna og kött. Skiptunum var snarlega lokið og hvorki kölluðu þeir til lögmann né skiptaráðanda því að kostnaðurinn við að borga þeim hefð fljótt étið upp föðurleifð þeirra. Hinn elsti erfði mylluna, sá næsti fékk asnann en sá yngsti fékk ekki neitt nema köttinn. Yngsti pilturinn var miður sín yfir fátæklegu hlutskipti sínu: „Bræður mínir“ sagði hann „geta unnið fyrir sér sómasamlega með því að leggja saman en ég hinsvegar, þegar ég hef étið köttinn og gert mér múffu úr skinninu af honum þá hlýt ég að drepast...