Færslur

Sýnir færslur frá mars, 2018

Úr ævintýrinu um Turandot

Prinsessan Turandot hefur heitið að giftast engum nema þeim sem ráðið getur þrjár gátur hennar og biðlar eru miskunnarlaust drepnir ef þeim mistekst. Prinsinn af Tartaríu einn ræður gáturnar. Hinsvegar gengst hann inn á að Turandot megi drepa hann ef hún getur upp á nafni hans fyrir sólarupprás. Annars á hún að efna heit sitt um að giftast honum. Hún fyrirskipar að allir borgarbúar skuli vaka til að komast að hvað hann heitir. Um það syngur hann: PRINSINN Enginn sofi! Enginn sofi! Ekki einu sinni þú, prinsessa, í þínu kalda herbergi horfirðu á stjörnurnar sem titra af ást og von! En leyndarmál mitt er læst í mér, enginn mun vita nafn mitt. Nei, nei við munn þinn mun ég segja það þegar ljósið geislar og koss minn mun rjúfa þögnina sem gerir þig mína. KÓR KVENNA Enginn mun vita nafn hans og við munum deyja. PRINSINN Hverf þú nótt, víkið stjörnur! Við sólarupprás mun ég sigra, sigra, sigra!

Heiðnu litlu fermingarbörnin

Eins og undanfarin ár kenni ég í námskeiðinu fyrir borgaralega fermingu. Með hverju árinu velja fleiri börn þennan kost. Nú í ár er það orðinn tíundi hluti árgangsins sem fermist borgaralega. Mitt hlutverk er að hitta tvo hópa vikulega og að fræða þau ögn um – og vekja til umhugsunar um – siðferði, gagnrýna hugsun og hvað skiptir máli í lífinu. Í dag hélt ég þessu áfram og kynnti þau fyrir Mannréttingayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Hún er auðvitað grundvallarplagg en samt lítils virði ef enginn les hana og leggur eitthvað á sig til að skilja hana. Markmið mitt í dag var að fá unglingana til að hugsa um nokkur grundvallarhugtök. Þar á meðal þessi: Virðing hverrar manneskju. Réttindi. Mannhelgi. Útlegð. Vanvirðandi refsing. Einkalíf.