Ólafur Kárason uppgötvar Númarímur
„Það var ekki fyr en hann fór að blaða í Númarímum, að hann byrjaði að efast um gildi sinnar eigin óskrifuðu bókar. Við kynnínguna af skáldskap Breiðfjörðs rann upp fyrir honum nýr dagur í andanum, bjartari en hinir fyrri. Hið klúsaða kenningaskrúð Jóhönnurauna og annara snildarverka Húsafells-Snorra, sem mest hafði verið að skapi Jóseps heitins, virtist skjótlega snautt og dapurt við samanburð hreinnar eddu Breiðfjörðs og hins ljósa söguefnis hans, en þó umfram alt þess heillandi túngutaks sem vekur í hjartanu ólæknandi kend um fegurð og sorg. Áður hafði hann haldið að öll skáld væru vegsamleg og að allur skálskapur væri einn og samur að verðleikum, svo fremi hann snerist um hetjudáðir yfirleitt, eða endurlausnarverk Jesú Krists sérstaklega, annaðhvort á nógu dýran eða nógu sanntrúaðan hátt. „Móðurjörð hvar maður fæðist“, – nú uppgötvar hann skyndilega að það er munur á skáldum. Og í hverju var þessi munur falinn? Einkum í því að önnur skáld virtust ekki hafa nema mjög óljóst hu...