Ólafur Kárason uppgötvar Númarímur
„Það var ekki fyr en hann fór að blaða í Númarímum, að hann byrjaði að efast um gildi sinnar eigin óskrifuðu bókar. Við kynnínguna af skáldskap Breiðfjörðs rann upp fyrir honum nýr dagur í andanum, bjartari en hinir fyrri. Hið klúsaða kenningaskrúð Jóhönnurauna og annara snildarverka Húsafells-Snorra, sem mest hafði verið að skapi Jóseps heitins, virtist skjótlega snautt og dapurt við samanburð hreinnar eddu Breiðfjörðs og hins ljósa söguefnis hans, en þó umfram alt þess heillandi túngutaks sem vekur í hjartanu ólæknandi kend um fegurð og sorg. Áður hafði hann haldið að öll skáld væru vegsamleg og að allur skálskapur væri einn og samur að verðleikum, svo fremi hann snerist um hetjudáðir yfirleitt, eða endurlausnarverk Jesú Krists sérstaklega, annaðhvort á nógu dýran eða nógu sanntrúaðan hátt. „Móðurjörð hvar maður fæðist“, – nú uppgötvar hann skyndilega að það er munur á skáldum. Og í hverju var þessi munur falinn? Einkum í því að önnur skáld virtust ekki hafa nema mjög óljóst hugboð um þá leið sem liggur til hjartans, en Sigurður Breiðfjörð rataði alveg ósjálfrátt þessa dularfullu leið, án þess að skilja eftir sig nokkur leiðarmerki fyrir hin skáldin, já hann fann sérhvert hjarta og snart það fegurð og sorg. Þegar einginn var á pallinum reis pilturinn upp skyndilega, tók fram Númarímur undan höfðalaginu og svalg nokkrar vísur, gleymdi í svip öllum þjáningum. Ef hann heyrði einhvern í stiganum flýtti hann sér að stínga bókinni undir koddann og leggjast fyrir. En skáldlistin fagra lagðist ekki fyrir í huga hans þótt einhver kæmi, heldur hélt áfram að óma þar og bríma. Þegar á leið vetur kunni hann rímurnar allar utan bókar, og Breiðfjörð ríkti yfir sál hans og var honum athvarf í hverri þjáníngu, og svo bar það við, að í fyrstu sóldögum á þorra steig skáldið sjálft niður úr litla sólargeislanum á súðinni, eins og úr himneskum gullvagni, og lagði rjóður og bláeygur sína mildu snillíngshönd á hið kvalafulla höfuð Ólafs Kárasonar Ljósvíkings og sagði: Þú ert ljós heimsins. Það var einn af þessum draumum sem gera dreymandann að sælum manni, þannig að hann ber með ljúfu geði alt sem kemur fyrir. Óþreytandi hugsaði pilturinn um skáldið og vagn hans, þegar hann átti bágt, svona getur verið mikil lækníng í einum draumi. Einn dag í myrkri skammdegisins, mitt í þessum dapra heimi, sem er svo fjandsamlegur viðkvæmu hjarta, hafði skáldið mikla komið til hans í gullreið sinni og skírt hann til ljóssins.
Þegar ég ligg í böndum bundinn,
barinn, í myrkri, slitinn sundur,
ekur til mín um sólna sundin
Sigurður Breiðfjörð uppheims kundur.
Sé ég ljóma sælt á hvarmi
sama bros úr gullreiðinni,
sem ég áður sviftur harmi
saung um hjá henni vænu minni.
Djúpt úr myrkrum fjóssins fjósa
feginn hlusta ég á hann tala.
Hann kallar mig til ljóssins ljósa,
ljóssins hallar gullnu sala.“

Ummæli
Skrifa ummæli