Fagurfræði rímna
Sigurður Breiðfjörð (1798–1846) setti stuttan formála fyrir Núma rímum (1835) þar sem hann gerði grein fyrir fagurfræði sinni. Þar segir hann:
„Eg hefi í Númarímum þessum viljað leitast við að umflýja það, sem mér helzt hefur þótt til lýta hingað til, svo vel á mínum eigin sem annara rímum.“
Hann telur upp lýti sem hann telur hafa verið á sínum eigin rímum og annarra sem hann vilji forðast. Þau eru:
1. „Ófimlegar Edduglósur“, það er að segja óskiljanlegar kenningar og ósmekklegar. Kenningar eru eitt helsta einkenni rímna. Þær eru svo mikilvægar að ég held því fram að kvæði sem engar kenningar hefur geti ekki talist ríma. Þær eru ættaðar úr dróttkvæðum en sérstaklega fóru rímnaskáldin eftir leiðbeiningum Snorra Sturlusonar í Skáldskaparmálum Snorra-Eddu. Leiðbeiningar Snorra eru opnar og gefa möguleika á endalausri nýsköpun. Á 19. öld var þessi nýsköpun komin út um víðan völl og stundum bara í óbeinu samhengi við leiðbeiningar Snorra. Þetta gat verið erfitt fyrir áheyrendur rímna þegar þær voru fullar af óskiljanlegum kenningum. Sigurður Breiðfjörð vildi forðast þetta. Hann taldi að skáldin ættu að nota kenningar til að „prýða hér og hvar“ verkið en mætti ekki verða að klisjum til að létta skáldinu verkið.
2. Annað atriðið sem Sigurður setur út á er að skáldin hafi valið fáránlegar sögur til að segja þar sem allskonar furður koma fyrir svo að „engin heilbrigð skynsemi fái þar af trúað einu orði“. Ég held að vandamálið sé ekki að sögurnar séu of ótrúlegar og standist ekki skoðun skynsemi heldur hreinlega lélegar sögur. Í kvikmyndagagnrýni nú í vikunni um 9. myndina í seríunni Fast and Furious er kvartað yfir því sama.
3. Hið þriðja er hortittir: Skáldin setja of mörg orð í rímur sem ekki þjóna framvindu sögunnar heldur aðeins forminu. Sigurður telur ástæðuna þá að skáldin velja sér svo snúna bragarhætti sem er ekki hægt að yrkja nema fylla formið af klisjum sem ekki þjóna efninu.
Allar þessar athuganir eru neikvæðar: þær segja hvernig rímur eigi EKKI að vera. Ef við snúm þeim við til að fá út jákvæðar leiðbeiningar gæti það orðið svona:
1. Kenningar og heiti er til prýði. Þær eru til tilbreytingar. Hluti af nautninni við að hlýða á rímur er ráða kenningarnar. Þær eru eins og dálitlar þrautir eða gátur á leiðinni sem þarf að ráða til að komast áfram en þurfa að vera nógu auðveldar til að lesandinn eða áheyrandinn strandi ekki heldur njóti þess að ráða hverja kenningu um leið og hún kemur fyrir.
2. Góð ríma segir góða sögu. Rímur eru epísk ljóð – söguljóð. Um rímu gilda sömu lögmál og um góða sögu: Það þurfa að vera mismunandi persónur, það þurfa að vera átök, það þarf að koma einhver lausn. Í því þarf að vera einhverskonar rökrétt framvinda. Mér finnst Sigurður of kröfuharður þegar hann segir sagan megi ekki brjóta gegn heilbrigðri skynsemi: Mér finnst töfrar og álög og allt slíkt mikilvægur hluti af góðum sögum.
3. Hvert orð í kvæðinu skal þjóna efninu fremur en forminu. Þetta er gömul og gild krafa í ljóðlist. Sigfús Daðason orðar svipaða gagnrýni í ritgerðinni „Til varnar skáldskapnum“ og setur fram þá kröfu að skáldið hafi lifað hvert orð í ljóði sínu. Maður getur ekki annað en sagt: Já, auðvitað! En á hinn bóginn verður að hafa í huga að rímur eru öðruvísi ljóðlist en lýrísk atómljóð. Rímur eru ekki bara ljóð heldur öðrum þræði tónlist. Hortittirnir sem skáldin setja inn vegna formsins eiga sér þá réttlætingu að þeir þjóna tónlistinni.
Ég ætla að láta vera að tala um hvernig Jónas Hallgrímsson tekur upp nákvæmlega þessi þrjú atriði í frægum ritdómi sínum um rímur 1837, tveimur árum eftir að Sigurður Breiðfjörð setti fram sína fagurfræði. Þegar maður les ritgerð Jónasar samhliða formála Sigurðar finnst manni Jónas frekar seinheppinn að herma eftir þeim manni sem hann svo ræðst á.
Hitt vil ég benda á að flestar rímur ortar á eftir Númarímum virðast taka mið af fagurfræði Sigurðar Breiðfjörð: Alþingis rímur (1901), Konungs komu ríma (1908) Ólafs rímur Grænlendings (1913), Rímur af Oddi sterka (1932) og fleiri.
Ummæli
Skrifa ummæli