Úr Rímum af Vígkæni kúahirði eftir Þórð Grunnvíking Þórðarson

Árið 1886 kom út í Reykjavík Sagan af Vígkæni kúahirði. Ekkert er sagt um hver sé höfundur eða hvaðan sagan komi en hún er sambland af ævintýrum, riddarasögum og fornaldarsögum, um pilt sem liggur í eldhúsi í foreldrahúsum en verður mikill riddari og eignast prinsessu og konungsríki. Á næstu árum ortu að minnsta kosti þrjú skáld rímur út frá þessari sögu (Rímnatal I, bls. 495). Meðal þeirra var Þórður Þórðarson, langafi minn. Því miður eru aðeins brot úr rímum hans varðveitt. Þau eru í safni af ýmsum rímum sem frændi hans, Magnús Hj. Magnússon, skrifaði. Hann virðist hafa haft allar rímurnar fyrir framan sig en aðeins valið úr þeim fáar vísur. Það þykir mér skaði. Og hvar er handritið sem hann fór eftir?!
Í sumar fór ég í Þjóðarbókhlöðuna til að skoða þetta handrit og ljósmyndaði nokkrar blaðsíður úr því. Nú hef ég skrifað upp þær vísur eftir langafa minn sem þar standa. Ég er ekki sagnfræðingur og óvanur að lesa handrit svo ég ábyrgist ekki alveg að ég hafi alltaf lesið rétt þó að ritöndin sé læsileg. Full ástæða væri til að gera meira með þetta og annan skáldskap sem til er eftir Þórð en þetta verður að nægja í bili.
Úr Vígkæns rímum kúahirðis, eptir Þórð Þórðarsson á Hlöðum í Strandasýslu. Kveðnar 1905.
Mansöngur á 1. rímu byrjar svo: (Ferskeytt)
1.Fram ef býð ég braghendur
brátt mun þjóðin séða
segja annar Eiríkur
Ólsen far'að kveða.
2.
Ég er stirður máls um mið,
mennt því engin styður;
Iðun kæra legg mér lið
ljóðasmíði viður.
3.
Gunnlöð á sem bætir brag,
bjór með geði ríku,
hana bað ég heilan dag,
hún var nísk á slíku.
4.
Ég sárbeiddi vífið vel,
vart örlæti prýðir
vín í grunna gimburskel
gaf mér þó um síðir.
5.
Nú ef Iðunn legði lið,
ljúfa grundin hnota,
skyldi og vildi máls um mið
mjaðar dropann nota.
Þriðji mansöngur hljóðar svo: (stuðlafall)
1.
Ullur fleira enn má reyna penna,
tíminn líður áfram ótt,
ekki bíður lengi rótt.
2.
Lítt er tími ljóð að stíma' en rímu
eina um (grímu) hugsast hér
hefur búna loga grér.
3.
Eg til kvæða ei má næði finna,
viður dunda vinnu hvar
viðjum bundinn fátæktar.
4.
Bækur fróðar frítt og ljóða smíði,
heims tel yndi allra bezt,
ama hrindir tíðum mest.
5.
Einnig fríða faldahlíðin unga,
gleður blíðan muna minn
meður prýði, rjóð á kinn.
6.
Ætti ég glöðu galdra föðurs mjöður,
vildi ég ljóðin vanda' um stund
vatna glóða fyrir hrund.
7.
Heimskan bagar bragarlag að staga
en vita' eitthvað um Vígkæn minn
vill orms traða mörkin svinn.
Fjórði mansöngur. Hringhenda
1.Fleinarjóður fjörugt skal
fram hér bjóð' um stundu
hringhent ljóð af sagnar sal
sævar glóða hrundu.
2.
Sú burt hýðir hugarstríð
hýrust prýði kvenna,
faldahlíðin beiddi blíð
brag að smíða þenna.
3.
Allir vita' að um mig þá
unaðs glita ljósin
mér nær situr hýrleg hjá
handarþvita rósin.
4.
Hugar eyðist þraut og þver,
það ég greiðast sanna,
faðm nær breiðir blítt að þér
bráins heiða nanna.
5.
Ef í bolla ætti nett
öl með holla gaman,
léti ég tolla í reglum rétt
rímuskolla saman.
6.
Hyggjuláðið heimsku ber
hróðrar þráð að tvinna,
þó í bráð skal brandagrér
bezta ráð til finna.
7.
Þín til vísa verð um sin,
vel því kýs um ræða,
upp því lýsir andi minn
Iðunn, dísin kvæða.
8.
Styðji óðargyðjan góð
geirarjóð með prýði,
því um blóðugt bæsings hljóð
byrjar ljóðasmíði.
Í sömu rímu eru þessi erindi:
31.Þegar slóðum fiska frá
færist glóðin skýja,
klæðist Fróða-kuflum þá
kvistir glóða dýa.
32.
Nás um bása breiða þar
byrjast ása gaman
hásir blása herlúðrar,
höldar rása saman.
33.
Hark á vífi Valgautar
vex hjá fífu meiðum,
bláir hlífa höggormar
hrukku' úr stífum skeiðum.
34.
Undalinnar enn á ný
örlögs minni kyrja
og í sinni þriðja því
þundarvinnu byrja.
Niðurlag rímnanna er þannig: (ferskeytt)
71.Þór er ara máls um mið
mærðar laus úr viðjum;
ég við lesinn ljóða klið
lauk á þorra miðjum.
Ummæli
Skrifa ummæli