Vistkerfi í krukku


Þessi krukka hefur ekki verið opnuð í sjö mánuði. Plönturnar í henni eru aldrei vökvaðar en eru þó grænar og gróskumiklar. Inni í krukkunni er sjálfbært vistkerfi. Græni liturinn sannar að plönturnar framleiða súrefni úr koltvísýringi sem aftur kemur frá örverum sem lifa á lífrænu efni úr plöntunum. Fáeinir sentilítrar af vatni samtals eru í krukkunni, það kemst ekki út og engu er bætt við heldur fer vatnið í hring: Plönturnar taka það upp með rótunum og nota það til að vaxa en gufa þéttist á glerinu og rennur niður. Orka sem heldur kerfinu gangandi kemur úr ljósi sólar þar sem krukkan stendur í glugga. 

Í mars á þessu ári fór ég með nemendum mínum niður að Læknum í Hafnarfirði og þau söfnuðu mold, smásteinum og tóku vatn úr læknum, mosa og nokkrum plöntum. Fyrstu dagana voru nokkrir sniglar þarna líka en ég er hræddur um að þeir hafi drepist. Þegar ég fór í sumarfrí skildi ég krukkuna eftir í glugganum. Þá hafði ég áhyggjur af að allt of heitt yrði inni í henni vegna gróðurhúsaáhrifanna og að allt myndi drepast í henni. Þegar ég kom til baka hafði þvert á móti allt vaxið um allan helming. Nú verður fróðlegt að sjá í vetur hvort kerfið lifir af skammdegið. 

Fyrir mig og nemendur mína er heilmikil menntun að sjá hringrásir náttúrunnar með eigin augum í krukku í glugganum.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Þegar afi minn kenndi Davíð frá Fagraskógi latínu

Fjórar tækifærisvísur