Turninn minn

Stundum hef ég lýst fyrir vinum mínum að ég vildi búa í turni. Orðtakið um fílabeinsturn hafði sitt að segja. Helst sá ég fyrir mér vita. Viti lýsir skipum og vísar þeim hvert eigi að stefna. Tóbías í turninum, sem spáði fyrir um veður, hafði líka áhrif á mig. Einnig gæti ég nefnt stjörnufræðingana í Múmínálfunum sem fylgdust með halastjörnunni úr turni. Auk þess fann ég til skyldleika með hinum opineyga franska einfara Montaigne sem sat í turni umkringdur bókasafni sínu og skynjaði allar hræringar í sálarlífi samborgara sinna. Mér þótti turn viðeigand samastaður fyrir heimspeking.

Svo flutti ég í íbúð á fjórðu hæð í blokk í Reykjavík. Hér hef ég allar bækur mínar, þar á meðal ritgerðasafn Montaignes. Ég sé til allra höfuðátta en horfi niður á hversdagslegt mannlíf (börn að koma í skóla, fólk að ganga út með hundinn). Út um eldhúsgluggann sé ég Esju. Af svölunum sé ég tunglið fara sinn mánaðarlega hring og á bak við raðast stjörnur í sín kunnuglegu merki.

Íbúðin mín á fjórðu hæð hefur alla sömu kosti og turn en enga ókosti. Snemma morguns fer ég til vinnu minnar og sinni ungmennum sem eru áttavillt í tilverunni og sum tættar sálir. Síðdegis kem ég hingað og tengi við Esju og tunglið og stjörnurnar.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Þegar afi minn kenndi Davíð frá Fagraskógi latínu

Vistkerfi í krukku

Fjórar tækifærisvísur