Bernskuminningar um pabba minn
1
Ég hef verið tólf ára þegar pabbi kenndi mér að smíða útvarp. Við sátum yfir hrúgu af litlum rafmagnshlutum: viðnámum, þéttum og transistorum. Hann kenndi mér að handleika lóðbolta, hvernig maður bræðir dropa af tini til að tengja á réttan stað. Hann útskýrði hvað viðnámin gera og hvað þéttar gera. Hann kenndi mér að lesa úr lituðu strikunum á viðnámunum. Hann sýndi mér hvernig stillanlegt viðnám virkar.
Á endanum hlustuðum við á tónlist og nýjustu fréttir úr þessu litla tæki.
2
Ég er í Þjóðleikhúsinu í fyrsta skipti, líklega til að sjá Kardimommubæinn. Pabbi bendir upp og útskýrir að formin í loftinu eigi að minna á stuðlaberg; að höfundur hússins hafi viljað að það minnti á klett svo gestum leikhússins fyndist eins og þeir kæmu inn í álfaborg.
Alltaf þegar ég kem í Þjóðleikhúsið horfi ég upp í loftið og þá rifjast þetta upp.
3
Við sitjum við útvarpstæki með stillt á stuttbylgju. Pabbi snýr takka og úr tækinu koma skruðningar og suð. Öðru hvoru heyrist tónlist og stundum raddir. Pabbi segir mér hvaða tungumál eru töluð og giskar á þau sem hann þekkir ekki. Hann útskýrir hvernig hann þekkir þau sundur og hvernig hann þekki hljóm tungumála sem hann skilur ekki.
Ummæli
Skrifa ummæli