Óvænt fundust gamlar vísur

1991–1994 kenndi ég heimspeki og íslensku við Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Þetta var góður tími: Ég öðlaðist mikilvæga reynslu sem kennari, kynntist skemmtilegu ungu fólki og góðum vinnufélögum. Á kaffistofunni var ekki töluð vitleysan, allavega ekki við það borð þar sem ég sat. Kollegi frá þessum tíma hafði samband af því hann hafði rekist á miða með nokkrum vísum sem fóru okkar á milli. Hér eru þær:

Um Gunnar Eyjólfsson leikara sem kenndi við FB á þessum tíma og sat við borðið:
Gamansamur Gunnar er,
guminn brúnaþykki,
ótrúlega upp með sér
enda kaþólikki.
Gunnari líkaði vísan ekkert sérstaklega og Eysteinn Björnsson orti í framhaldi af því:
Skáldmæltur er Skúli Páls
skammtar mönnum speki,
vin sinn Gunnar hann til háls
hefur atað bleki.
Eysteinn var vanur að hafa vatnsglas við höndina. Þegar hann sagðist ætla í leyfi til að sinna ritstörfum var hann spurður á hverju hann ætlaði að lifa og hann sagðist ætla að lifa á loftinu:
Vitringarnir vatn sér fá
en væri ekki gaman
að fara í leyfi og lifa á
lofti einu saman.

Karl Jósafatsson stjarneðlisfræðingur sagði eitthvað um að staðreyndir séu ekki til:
Vetrarbrautin veit ég snýst
og víddirnar ég þekki
stjörnuhrap er steinn sem skýst
en staðreynd er það ekki.

Ummæli

  1. Snilld. :) Ég tók einmitt við af þér 1994-1998 og þekki vel þessa sömu einstaklinga. Skemmtilega ort Skúli.

    SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Þegar afi minn kenndi Davíð frá Fagraskógi latínu

Vistkerfi í krukku

Fjórar tækifærisvísur