Augnablik undrunar í skólastofunni

Í kennslu koma augnablik sem kennarinn segir um eftir á: þetta er það sem gerir þetta starf þess virði að vera í því, þetta er það sem vegur upp á móti stressinu, lélegu kaupi og öllu því. Eftir svona augnablik kemur kennarinn brosandi út úr kennslustofunni og á kaffistofunni finnur hann fyrir knýjandi þörf til að segja samstarfsfólki hvað gerðist. Allt í einu gengur allt upp og meira en það: Eitthvað fer að gerast sem kennarinn hafði ekki skipulagt og alls ekki búist við og kannski eitthvað sem hann hafði ekki hugmynd um að væri hægt.

Það sem gerist er að viðfangsefnið tekur völdin. Nemendurnir heillast. Allt í einu taka þeir að læra sjálfir, fara sjálfir að vinna, finna upp eigin leiðir til að leysa verkefni.

Stundum er talað í endurmenntunarnámskeiðum fyrir kennara um áhuga og áhugahvöt, hvernig viðfangsefni í náminu þurfi að höfða til nemenda til að vekja áhuga þeirra. Þá er eins og kennarinn eigi að velja efni á þroskastigi níu ára barns til að geta höfðað til níu ára barns. Hér beini ég athyglinni ekki að áhuga barnsins heldur að viðfangsefninu. Þegar viðfangsefnið tekur völdin þá er það oft eitthvað sem vekur alveg jafnt forvitni fullorðins og barns, það er alveg jafn mikið undrunarefni fyrir þjálfaðan vísindamann og grunnskólanemanda.

Svona augnablik koma í öllum skólastofum, kannski misoft. Þau geta orðið í hvaða námsgrein sem er. Sumir kennarar eru ekkert sérstaklega að keppa eftir að magna slík augnablik, þeim er nóg að nemendur vinni verkefnin, haldi friðinn. Og það er fínt. Auðvitað verður að vinna verkefnin og halda friðinn. Þannig er lífið og þannig er skólinn.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Þegar afi minn kenndi Davíð frá Fagraskógi latínu

Vistkerfi í krukku

Fjórar tækifærisvísur