Augnablik undrunar: ormur í leðju
Í gær bloggaði ég um það sem ég kallaði augnablik undrunar í kennslu. Augnablik eru hverful eins og þið vitið (eins og segir í ljóðinu: „Hér kvaddi lífið sér dyra en nú er það farið“). Þegar þau koma í kennslustoufunni er stundum enginn til frásagnar nema kennarinn í frímínútum á kaffistofunni. Samt fréttir kennarinn oft að nemendur hafi sagt frá slíkum augnablikum heima hjá sér og að þau hafi orðið umræðuefni á heimilum. Margt fullorðið fólk á fallegar minningar úr skólagöngu sinni um augnablik þegar eitthvað merkilegt, lærdómsríkt, undravert gerðist.
Nú til dags hafa allir snjalltæki á lofti til að mynda hverja stund lífsins þannig að kannski safnast þessa dagana fleiri heimildir um þessi sérstöku augnablik. Einu sinni lánaðist mér að festa á myndskeið svona augnablik.
Á þessum tíma kenndi ég á 9–12 ára börnum í Smáraskóla. Í náttúrufræðitímunum lásu þau dálítið um lífríkið í leirunni í Kópavogi og hvað þessi leira er eiginlega. Með því að bera saman flóðatöflur og stundatöfluna okkar fann ég út hvenær væri stórstraumsfjara á skólatíma og skipulagði rannsóknarferð. Þá þurfti að láta foreldra vita að nauðsynlegt væri að börnin kæmu í skólann klædd eftir veðri en alveg sérstaklega að þau væru í góðum stígvélum. Það gekk allt vel því nemendur í Smáraskóla eiga umhyggjusama foreldra.
Myndskeiðið hér fyrir ofan tók ég upp á símann minn. Á þessum tíma voru snjallsímarnir ekki eins útbreiddir og nú þannig að ég var frekar tæknivæddur miðað við það sem þá gerðist. Til að skilja augnablikið er nauðsynlegt að hlusta á hljóðið. Þá heyrið þið spurningarnar, spenninginn, forvitnina. Við heyrum líka löngunina til að deila augnablikinu með öðrum, einhverskonar þekkingarfræðilega samkennd, sem ég held að sé lykilatriði í menntun.
Ummæli
Skrifa ummæli