Frelsi og afturhald í uppeldi


Í umræðu um uppeldismál má alltaf heyra einhversstaðar raddir umbótasinna sem vilja róttækar breytingar á menntakerfinu. Það er fólk eins og María Montessori, John Dewey og Matthew Lipman. Við þennan lista vil ég bæta bandaríska sálfræðingnum og uppeldishugsuðinum Peter Grey sem ég hef lesið og hrifist af. Marga fleiri mætti telja. Þau gagnrýna hefðbundin valdakerfi: vald feðranna, kirkjunnar, kapitalsins. Þar á móti ganga þau út frá barninu sjálfu. Þá er talað um barnmiðja uppeldisfræði. Það viðhorf horfir á barnið sem sjálfstæða vitsmunaveru og siðferðisveru sem hafi í sér alla möguleika til þroska. Uppalandi, hvort sem það er foreldri eða kennari, þurfi því fyrst og fremst að gefa barninu tækifæri til að þroska sig sjálft og gera að veruleika allt sem þegar býr í því. Sum í þessari sveit vilja helst brjóta niður þau kerfi sem við höfum núna í kring um uppeldi.

Þau sem aðhyllast framfarasinnaða uppeldisfræði tala stundum fyrir sínum málstað með því að útmála galla þess menntakerfis sem við búum við. Eftir Maríu Montessori er haft að barn hafi hundrað tungumál þegar það kemur í skólann en við tökum frá því nítíuogníu. Peter Grey talar um sjö dauðasyndir skólakerfisins. Vinir mínir sem hafa áhuga á heimspeki í uppeldi segja stundum að börn séu náttúrulegir heimspekingar þegar þau koma í skólann en sjálfstæð og skapandi hugsun þeirra sé drepin niður í skólanum. Nú síðast mátti lesa í Stundinni viðtal við fyrrum handboltakappa með áhuga á uppeldismálum sem talar í þessum tón.

Í umræðu um skólamál, og uppeldi yfirleitt, er full þörf fyrir gagnrýni þessara framfarasinnuðu uppeldisfræðinga. Við þurfum að hlusta á hana og taka mark á því sem hún hefur fram að færa. Hinsvegar er alltaf annað sjónarmið. Við þurfum líka að horfa á veruleikann: Í grunnskólum á Íslandi starfa eitthvað um 4000 kennarar. það er ekki þannig að meirihluti þeirra starfi leynt og ljóst að því að kæfa þroskamöguleika barnsins. Kennarar reyna eins og þeir geta að styrkja hvert einasta barn í vitsmunalegum, tilfinningalegum, félagslegum þroska. Þetta er ekki lítið verkefni en ég fullyrði að meirihluti kennara leggur líf og sál í það. Íslenskir kennarar gera eins vel og hægt er innan þess kerfis sem þeir starfa í. Það er stundum vanþakklátt starf.

Ég tel mig aðhyllast barnmiðaða uppeldishugsun. Þessvegna freistast ég stundum til að viðhafa stóryrði um grunnskólann sem ég starfa þó sjáfur í – síðast í gær hér á þessu bloggi. Ég held að leiðin fyrir framfarir í uppeldi sé ekki að útrýma grunnskóla eins og hann hefur þróast heldur að starfsfólkið í honum fái frelsi frá þessum stóru valdakerfum þannig að breytingin komi innan frá.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Þegar afi minn kenndi Davíð frá Fagraskógi latínu

Vistkerfi í krukku

Fjórar tækifærisvísur