Kertaljósið

Þessa mánuði sem myrkrið er mest úti læt ég ævinlega loga kerti heima hjá mér. Fyrsta sem ég geri á morgnana þegar ég fer á fætur er að kveikja á kerti í eldhúsinu. Því næst laga ég kaffi. Þegar ég kem heim úr vinnu kveiki ég aftur á kertinu um leið og ég kem inn úr dyrunum.

Auðvitað er þetta alveg órökréttur vani, líklega einhver tegund af áráttuhegðun.  Ástæðan er ekki að kerti gefi birtu því ég hef nóg af rafmagnsljósi sem lýsir miklu skærar en þetta eina kerti. Ástæðan er heldur ekki að það gefi hlýju því að – þökk sé jarðhita Íslands – er alltaf mátulega hlýtt í íbúðinni minni. Þaðan af síður dugir þessi litli kertalogi til að elda mat. Til þess hef ég eldavél.

Loginn á kertinu, lítill lifandi eldur, tengir mig við forsögulegan tíma; ég ímynda mér að ég upplifi á einhvern hátt það sama forfeður okkar og formæður sem söfnuðust saman við eldinn til að matreiða, eta, tala, segja sögur, hvílast. Ég ímynda mér að kertaloginn tengi mig við eitthvert upprunalegra ástand mannsins þegar öll þessi tæki voru ekki farin að troða sér inn í líf okkar.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Þegar afi minn kenndi Davíð frá Fagraskógi latínu

Vistkerfi í krukku

Fjórar tækifærisvísur