Hallgrímur Helgason og ég í München
Um daginn las ég bókina Sjóveikur í München eftir Hallgrím Helgason. Ég hef ætlað mér að lesa hana frá því hún kom út fyrir nokkrum árum en ég er einn þeira sem hef átt erfitt með hinar þykku skáldsögur Hallgríms vegna yfirflæðandi mælsku hans. Þessi bók fannst mér þó eiga erindi við mig því hún fjallar um ungan Íslending í München eins og ég var einu sinni.
Hallgrímur er ári eldri en ég og kom til München árið sem hann varð 22 ára en ég kom þangað þremur árum síðar, árið sem ég varð 24 ára. Ég kannast við umhverfið sem hann lýsir: göturnar sem hann nefnir, lestastöðvarnar, októberhátíðina og fleira. Nokkur atriði eru alveg eins í sögum okkar beggja. Eitt er að fyrstu vikurnar í München dvelur hann á stúdentagarði í Schwabing í herbergi sem hann fær lánað af Íslendingi. Þegar ég kom fyrst til München fékk ég inni í herbergi landa míns sem var ókominn þangað til ég fann mér annað húsnæði. Síðan leigir hann herbergi í úthverfi af konu sem vinnur hjá Siemens. Síðar í bókinni nefnir hann að þetta hverfi hafi verið Sendling sem ég held að teljist varla úthverfi. Ég fékk herbergi í hverfi eða bæjarfélagi sem var 20 mínútna lestarferð frá miðborginni en þar leigði ég einmitt af konu sem vann hjá Siemens.
Þar með er eiginlega upp talið það sem við eigum sameiginlegt. Hallgrímur virðist ekki hafa náð miklu sambandi við borgina eða við Þýskaland þennan vetur sem hann dvaldi þar. Hann lýsir unga manninum sem hann var þá sem vandræðalegum bólugröfnum unglingi sem vissi ekki hvað hann vildi og hafi verið furðu fordómafullur. Á bókinni er að skilja að hann hafi hætt við að fara í Enska garðinn vegna þess að hann hafi ímyndað sér að hann væri fullur af hippum en honum er í nöp við hippa. Hann minnist ekki á að hafa farið í bjórgarð. Hann talar um óperuhúsið en fer aldrei inn í það því honum finnst óperur asnalegar. Þó að hann sé í myndlistarnámi og hugsi mikið um myndlist, sérstaklega málverk, þá minnist hann hvergi á að hafa farið á tvö heimsfræg málverkasöfn í borginni, Gamla og Nýja Pinakotekið þar sem er til sýnis gott úrval úr allri myndlistarsögu Evrópu.
Þegar Hallgrímur fer til Ítalíu lifnar hins vegar yfir honum. Þar verður hann strax hugfanginn af listinni sem blasir hvarvetna við. Þar gerist hins vegar það sem hefur verið fjallað um í fjölmiðlum að honum var nauðgað. Í bókinni talar hann ekki mikið um hvaða áhrif þetta hafði á hann en í viðtölum hefur hann sagt frá að þetta hafi lengi hvílt þungt á honum. Ég velti fyrir mér hvort þetta áfall liti líka minningu hans um München.
Annar kafli síðar í bókinni finnst mér merkilegur og hefði mátt vekja meiri athygli og í viðtölum hefði mátt spyrja Hallgrím nánar út í hann. Hann segir frá því að hann hafi lokið dvöl sinn í Þýskalandi með því að fara til Austur-Berlínar. Þar hafi hann verið handtekinn fyrir að taka mynd af varðturni á Berlínarmúrnum og að hann hafi setið í fangelsi nokkra daga. Hann hafi ekki losnað nema fyrir tilstilli íslensku utanríkisþjónustunnar.
Ungi maðurinn sem Hallgrímur lýsir er ólíkur unga manninum sem ég var og reynslan af München ólík. Hallgrímur fann sig ekki í náminu í Listaakademíunni en inni í honnum er rithöfundur að verða til þótt hann geri sér ekki grein fyrir því fyrr en síðar. Þegar ég kom til München hafði ég hins vegar ákveðið erindi, ég var staðráðinn í hvað ég vildi gera því heimspeki var þá orðin mér köllun. Ég naut margra góðra hluta sem borgin hefur upp á að bjóða; þar er Enski garðurinn, bjórgarðar, tónlist, þar á meðal ópera, listasöfnin, bókabúðir og svo margt fleira. Dvöl mín í München var góður tími fyrir mig.
![]() |
| Mörgum árum síðar kom ég til München og stillti mér upp fyrir framan háskólann. Listaakademían er þarna rétt hjá. |

Ummæli
Skrifa ummæli