Stígvélaði kötturinn

 Þegar ég orti Rímur af stígvélakisu fannst mér nauðsynlegt að fara nákvæmlega eftir sögunni sem var fyrirmynd mín. Fljótlega komst ég að því að prentaðar útgáfur af sögunni eru oft styttar og endursagðar fyrir börn og því brá ég á það ráð að þýða hana úr frummálinu. Hér kemur þýðingin með myndum eftir Gustav Doré.

Stígvélaði kötturinn

úr Sögum gæsamömmu eftir  Charles Perrault

[1]

Einu sinni var malari sem átti ekki annað til að arfleiða syni sína þrjá af en mylluna sína, asna og kött. Skiptunum var snarlega lokið og hvorki kölluðu þeir til lögmann né skiptaráðanda því að kostnaðurinn við að borga þeim hefð fljótt étið upp föðurleifð þeirra. Hinn elsti erfði mylluna, sá næsti fékk asnann en sá yngsti fékk ekki neitt nema köttinn.

Yngsti pilturinn var miður sín yfir fátæklegu hlutskipti sínu: „Bræður mínir“ sagði hann „geta unnið fyrir sér sómasamlega með því að leggja saman en ég hinsvegar, þegar ég hef étið köttinn og gert mér múffu úr skinninu af honum þá hlýt ég að drepast úr hungri.“

Kötturinn hlustaði á allt sem hann sagði en lét það ekki sjást á sér heldur talaði til hans alvarlegur í bragði: „Kveldu þig ekki með áhyggjum, húsbóndi minn. Þú þarft ekki annað en útvega mér pokaskjatta og gera handa mér stígvél til þess að trampa í gegnum kjarrið og þá muntu sjá að þú ert ekki eins illa settur og þú hélst.

Þó að húsbóndi kattarins tæki ekki mikið mark á þessu þá hafði hann að vísu oft séð köttinn beita kænlegum brellum á rottur og mýs eins og að hanga á hælunum eða að fela sig í matnum og þykjast vera dauður. Þessvegna kviknaði með honum vonarneisti um að kötturinn gæti gert eitthvað til að hjálpa sér úr þessum ömurlegu aðstæðum.

[2]


Þegar kötturinn hafði fengið það sem hann bað um þá dró hann á sig stígvélin og slengdi pokanum á bak sér. Hann hélt í strengina með loppunum og fór á stað þar sem mikið var um kanínur. Hann lét dálítið grænmeti og hveitiklíð í pokann og lagðist endilangur eins og hann væri dauður og beið þangað til kanína sem lítið hefði lært á svik heimsins skriði inn í pokann til að gæða sér á fóðrinu sem hann hafði tekið með. 

Varla var hann lagstur fyrr en það gerðist sem hann vonaðist til. Ungur kanínukjáni fór inn í pokann. Kötturinn dró snarlega í spottana, greip kanínuna og drap hana miskunnarlaust.

Hreykinn af bráð sinni fór hann til konungshallarinnar og krafðist þess að fá að tala við konunginn. Honum var vísað upp í híbýli konungsins þar sem hann hneigði sig djúpt og sagði við konunginn: „Sjá, yðar hátign, hér er kanína (úr móanum) sem herra markgreifinn af Karabas (þetta nafn hafði hann valið handa húsbónda sínum) hefur falið mér að færa yður að gjöf frá sér.

„Segðu húsbónda þínum“ svaraði konungurinn „að ég þakki honum og sé ánægður með gjöf hans.“

Nokkru síðar faldi hann sig á kornakri þar sem hann opnaði pokann sinn aftur og þegar akurhænupar fór inn í hann kippti hann í strengina og fangaði þær báðar. Hann færði þær konunginum eins og hann hafði gert með kanínuna. Konungurinn tók við gjöfinni eins og áður með mikilli ánægju og gaf honum þjórfé.

Kötturinn hélt áfram í tvo eða þrjá mánuði að færa konungi öðruhvoru villibráð frá húsbónda sínum.

[3]


Einn daginn þegar hann vissi fyrir víst að kóngurinn myndi fara í ökuferð hjá ánni ásamt dóttur sinni sem var fegursta prinsessa í heimi þá sagði hann við húsbónda sinn: „Ef þú ferð að mínum ráðum þá ertu í góðum málum. Þú þarft ekki að gera annað en baða þig í ánni þar sem ég sýni þér og láta mig um afganginn“.

Greifinn af Karabas gerði eins og kötturinn ráðlagði honum án þess að vita af hverju. 

Meðan hann baðaði sig ók kóngurinn fram hjá og kötturinn tók að æpa: „hjálp! Hjálp! Minn herra markgreifinn af Karabas er að drukkna!“

Þegar konungurinn heyrði þessi óp stakk hann hausnum út um gluggann og sá að þar var kötturinn sem hafði fært honum svo marga gómsæta villibráð og skipaði þegar í stað lífvörðum sínum að koma greifanum af Karabas strax til hjálpar. 

Á meðan þeir drógu vesalings greifann upp úr ánni kom kötturinn upp að vagninum og sagði konungi að á meðan húsbóndi hans baðaði sig hafi þjófar stolið fötunum hans jafnvel þótt hann hafi hrópað „þjófar! þjófar!“ en skálkurinn hafði í rauninni falið þau undir stórum steini.

Konungurinn fyrirskipaði þegar í stað klæðaskemmuoffiserum sínum að sækja fegursta klæðnaðinn sinn handa herra markgreifanum af Karabas. Kóngurinn heilsaði honum með mikilli kurteisi og þar sem fínu fötin gerðu hann sérstaklega glæsilegan í útliti (en hann var sjálfur fagurlega skapaður) þá féll kóngsdóttirin fyrir honum. Greifinn af Karabas þurfti ekki annað en senda henni einu sinni eða tvisvar ástleitið augnaráð og þá varð hún yfir sig ástfangin af honum. Konungurinn bað hann að setjast með þeim í vagninn og slást í förina. 

Kötturinn var himinlifandi yfir hvað ráðabrugg hans ætlaði að heppnast og hljóp á undan. Þegar hann sá nokkra bændur sem voru að slá akur sagði hann við þá: „góðu menn sem skerið korn, ef þið segið ekki kónginum að kornið sem þið skerið tilheyri herra markgreifanum af Karabas þá verðið þið hakkaðir eins og kæfa“.

Ekki brást það að konungur spurði sláttumennina hver ætti engin sem þeir slógu.

„Þau tilheyra herra vorum markgreifanum af Karabas“ svöruðu þeir allir sem einn því kötturinn hafði hrætt þá. 

„Þarna eigið þér laglega arfleið“ mælti konungur. „Já, sjáið þér til, yðar hátign“ svaraði greifinn, „það bregst ekki að þessir akrar gefa árlega af sér ríkulega uppskeru.“


Meistari köttur hljóp stöðugt á undan og þegar hann mætti fleiri sláttumönnum sagði hann við þá: „Heyrið þið kunningjar sem skerið korn, ef þið segið ekki að allt þetta hveiti tilheyri herra greifanum af Karabas þá verðið þið hakkaðir eins og kjöt í kæfu“.

Stuttu síðar kom konungur þar að og spurði þá hver ætti kornið sem þær skáru.

„Markgreifinn af Karabas“ á það allt svöruðu sláttumennirnir og líkaði konunig það vel og greifanum ekki síður og konungurinn óskaði honum til hamingju með uppskeruna. Meistari köttur hljóp á undan og sagði öllum sem hann hitti það sama. Konungurinn var steinhissa á hinum miklu landareignum greifans af Karabas.

[4]

Meistari köttur kom loks að glæsilegum kastala þar sem réð húsum auðugasta tröll sem sögur fara af. Allar þær landareignir sem konungurinn hafði farið um tilheyrðu þessum kastala. Kötturinn hafði gætt þess að afla sér upplýsinga áður um tröllið og hvað það kynni að gera. Hann fór fram á að fá að tala við það og sagðist ekki vilja fara fram hjá án þess að hafa þann heiður að votta því virðingu sína. Tröllið tók á móti honum jafn kurteislega og tröll er yfirleitt fært um og bauð honum að fá sér sæti. 

„Mér hefur verið tjáð“ sagði kötturinn „að þér hafið þann hæfileika að geta breytt yður í hvaða dýr sem er, að þér getið til dæmis umbreyst í ljón eða fíl“.

„Það er satt“ svaraði tröllið stuttaralega „og til að sannfærast um það skaltu horfa á mig breytast í ljón.“ Kötturinn varð svo dauðhræddur við að sjá ljón beint fyrir framan sig að hann stökk beint upp í þakrennuna sem var erfitt og hættulegt því stígvélin komu að litlu gagni við að ganga á tígulsteinum.

Þegar hann sá að tröllið tók á sig sína fyrri mynd hætti hann sér aftur niður og sagði: „Mér hefur ennfremur verið sagt, en sem ég á þó erfitt með að trúa, að þér getið líka tekið á yður form lítill dýra til dæmis með því að breytast í rottu eða mús. Ég játa að þetta tel ég með öllu útilokað.“

„Útilokað!“ svaraði tröllið; „þú færð að sjá“ og umsvifalaust breytti það sér í litla mús sem hljóp um á gólfinu. Um leið og kötturinn sá það stökk hann á músina og át hana.

[5]

Meðan þessu fór fram kom konungurinn auga á kastala tröllsins og langaði að líta inn. Kötturinn heyrði í skröltið í vagninum þegar hann fór yfir vindubrúna og hljóp út og ávarpaði konunginn: „Yðar hátign sé velkomin til hallar herra markgreifans af Karabas!“

„Hvað þá, herra markgreifi“ hrópaði konungurinn, „áttu líka þennan kastala? Það getur ekki verið til neitt glæsilegra en þessi hallargarður og allar byggingarnar í kring, við skulum fara inn fyrir með yðar leyfi.“

Markgreifinn rétti prinsessunni hönd sína og þau fylgdu konungi og komu inn í mikinn sal þar sem fyrir þeim varð stórkostleg máltíð á borðum sem tröllið hafði útbúið handa vinum sínum sem ætluðu að koma í heimsókn en þorðu nú ekki að koma vitandi af konunginum þar. 

Konungurinn (og prinsessan sömuleiðis) var yfir sig hrifinn af glæsileik og góðum hæfileikum markgreifans af Karabas og þegar hann sá hinar miklu eignir sem hann átti sagði hann eftir að hafa fimm eða sex glös: „Það verður yður að kenna, herra markgreifi, ef þér verðið ekki tengdasonur minn.“

Markgreifinn hneigði sig djúpt og þakkaði heiðurinn sem konungurinn gerði honum og

[6]

 þann sama dag giftist hann prinsessunni.

Kötturinn varð meiri háttar aðalsmaður og hljóp aldrei framar á eftir músum nema sér til skemmtunar.


(Tölurnar í hornklofum tákna hvernig sögunni er skipt í rímunum sex).


Ummæli

  1. Þegar ég les þetta núna kem ég auga á nokkur atriði sem ég hef sleppt en hefðu verið safaríkt yrkisefni eins og tilsvar piltsins um að hann hljóti að drepast úr hungri eftir að hafa étið köttinn.

    SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Þegar afi minn kenndi Davíð frá Fagraskógi latínu

Vistkerfi í krukku

Fjórar tækifærisvísur