Þórður Grunnvíkingur yrkir um strand Vestu
| Strandferðaskipið Vesta strandað nálægt Hnífsdal í febrúar 1913 |
17. febrúar 1913 lagði strandferðaskipið Vesta af stað frá Ísafirði á suðurleið. Um borð var langafi minn, Þórður Grunnvíkingur, sem hafði ákveðið með stuttum fyrirvara að fara nokkurskonar menningarreisu til Reykjavíkur. Ferðin byrjaði brösulega eins og hann skrifaði í dagbókina sína:
Við vorum undir þiljum og uggðum ei að fyrr en við heyrðum 3 högg mikil, er því var líkast sem skipið rynni á grunn. Gátum við varla trúað því og rukum upp. Sáum þá hvað um var; Vesta var komin upp á grunn við Völlurnar, innanvert við Hnífsdal og undraði okkur hvað hún var grunnt uppá blindum Hraunbæ.
Allt fór þó vel og langafi minn fór tveimur dögum síðar með Botníu til Reykjavíkur. Þar dvaldi hanní í viku og sat ekki auðum höndum: lét prenta ljóðabók sína, hélt skemmtun fyrir bæjarbúa í Bárunni þar sem hann kvað rímur milli þess sem hann hitti ýmsa merkismenn í bænum. Dabókarfærslur hans þessa daga þykja mér stórfróðlegar heimildir og öll þessi ferð hin merkilegasta, til dæmis þetta:
22 febrúar sat ég við að skrifa til kl. 12. Fór ég þá að skoða Landsbókasafnið. Eftir það orti ég 16 vísur um Vestu-strandið er út komu í Vísi.
Vísurnar birtust strax daginn eftir að þær voru ortar og fyrir tilstilli hins frábæra internets er auðvelda að fletta upp í dagblaðinu Vísi frá 23. febrúar 1913. Þar voru þessar vísur prentaðar:
Vestu strandið
Jeg skal enn með
þankann þýða
þylja fögur ljóð
og vestan af Ísafirði
fríða
frjettir bjóða þjóð.
Sem að ýmsum voða
veldur,
votta sagnirnar,
þar er feikna fár og eldur
fjúk
og næðingar.
Þar er sími' og
sannleiksfrjettir
saman tvinnaðar,
engin lygi, engir
blettir
eru neinstaðar.
Margur sæjór má
til hafna
mæddur renna þar,
ráða stóru drekum
drafna
danskir meistarar.
Okkur bjóða´af
blessun gæða
baunir og annað þarft,
allar hjálpar æðar
blæða.
Ó það kærleiks skart.
Hrímlands vestra
höfuðsetur
heitum nefndan stað.
Þangað póstskip
vendi' um vetur,
Vesta norðan að.
Hafði fjölda
farþeganna,
fylla sali vann,
með þá besti blakkur
hranna
brautir hvala rann.
Af sjer slöpin
hafsins hristi
hart um lýsujörð,
sú eldgyðjan rómversk
risti
Rán á Ísafjörð.
Batt sig þar við
bryggju eina,
beið í tíma þrjá,
bljes og kallar kæra
sveina
konu' og börnum frá.
Akker' var úr djúpi
dregið,
dundu lúðra köll,
eimi knúið fór svo
fleyið
fiska renna völl.
Fáir sáu feikna
roðann,
fyrir enginn kveið,
uns á vonda
Vallarboðann
Vesta gamla skreið.
Þegar stóri
strengjajórinn
steindan hafsbotn knýr,
landið skalf en
skvettist sjórinn,
skemdust mörg lindýr.
Gottfredsen að
gjörðum sínum
glotti' og konjakk
tappa ljet úr flöskum
fínum,
fylti staup og drakk.
Sálinni gafst
fullur friður,
fann ei vansa til,
labbaði svo í sali
niður
sjeffinn þetta sinn.
Stýrimaður gæfu
greiða
gjarnan vildi fá,
farþega alla lætur
leiða
ljettisnekkju á.
Margur skaða mátti
finna,
margir hljóða brátt,
margir stigu' á marar
linna,
margir bölva hátt.
Þ.Þ Grunnvíkingur
Ýmislegt í þessum vísum finnst mér merkilegt. Hann virðist halda því fram að skipstjórinn hafi verið undir áhrifum áfengis þegar skipið strandaði en ekki finn ég í dagbókinni hvað hann hefur haft fyrir sér í því. Í blaðafréttum sem ég finn frá þessum tíma er ekkert minnst á slíkt heldur er dimmviðri kennt um.
Bragarhátturinn er skammhenda og fleira sýnir að skáldið kemur úr rímnahefðinni eins og kenningarnar. Skipið kallar hann „eldgyðjan rómversk“ en hjá Rómverjum var Vesta gyðja heimiliseldsins. Í nokkrum öðrum kvæðum hans kemur fram áhugi á grískri og rómverskri goðafræði.
- - -
Útdrættir úr dagbókum Þórðar eru prentaðir í bókinni Þórður Þ. Grunnvíkingur rímnaskáld (2011)
Myndina fékk ég lánaða af vefnum Sarpi og játa að það var í leyfisleysi.
https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1999276
Ummæli
Skrifa ummæli