Fjórar tækifærisvísur

 Ég hef ekki gert vísur  nokkuð lengi. Ég lifi eftir reglunni um að gera bara það sem mig langar til og undanfarin misseri, eftir ævintýrið um Rímur af stígvélakisu, hefur mig bara ekki langað nógu mikið. Samt veit ég að hagmælsku þarf að rækta; maður þarf að æfa sig og halda sér við, helst með daglegum æfingum eins og fótboltamenn og hljóðfæraleikarar gera. 

Samt skortir ekki áform. Ég er með hugmyndir um nýjar rímur og ljóðabækur. En í kvöld gerði ég fjórar vísur með því að svara nokkrum hagyrðignum kunningjum mínum á Boðnarmiði. Gjörið svo vel:

Svar til Hallmundar Guðmundssonar vegna þess að hann lofaði írskt kaffi:

Það sem alltaf gleður gest
og gerir þjóðir hýrar,
það er kaffiblandið best
er brugga kátir Írar.


Svar til Péturs Stefánssonar:

Stundum ef að úti er kalt
úr mér næ ég hrolli;
hressir morgunhúmið allt
heitur kaffibolli.


Svar til Antons Helga vegna umræðu um Kára Stefáns:

Rata kýr á rétta bása,
rásar fé um græna ása;
áttavilltur einn ég mása,
„idiot honoris causa“.

Magnús Halldórsson gleymdi limru sem hann dreymdi:

Eftir af limrunni eimdi
sem áðan í drauminum streymdi
en þegar ég vaknaði
þá hennar saknaði
því þegar í stað henni gleymdi.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Þegar afi minn kenndi Davíð frá Fagraskógi latínu

Vistkerfi í krukku