Þegar afi minn kenndi Davíð frá Fagraskógi latínu
Theodór um 1930 Þegar Davíð Stefánsson frá Fagraskógi gaf út fyrstu ljóðabók sína, Svartar fjaðrir , 1919 þótti kveða við nýjan tón í íslenskum skáldskap. Þennan sérstaka söngræna ástríðufulla hljóm sem við elskum enn lærði Davíð meðal annars af skandinavískum skáldum síns tíma. Þessum skáldum kynntist hann 16 ára þegar hann sótti aukatíma í latínu og þýsku hjá syni kaupmannsins á Svalbarðseyri. Sá hét Theodór Jakobsson. Hann var 21 árs og lærði heimspeki við háskólann í Kaupmannahöfn, afburða námsmaður og ljóðelskur. Þennan vetur dvaldi hann í föðurhúsum en frá Kaupmannahöfn kom hann með nýjustu ljóðabækurnar og kynnti fyrir hinum unga skáldhneigða pilti, til dæmis bækur eftir Gustav Fröding og Erik Axel Karlfeldt Einar Guðmundsson frá Hraunum (1894–1977) segir svo frá í minningaþætti um Davíð: Davíð mun ekki hafa stundað námið í þriðja bekk af neinu kappi, því að hann tók fremur lélegt gagnfræðapróf um vorið. Og hvort sem hann hefur ráðið því sjálfur eða foreldrar hans, þá...